Þingflokkur Framsóknarflokksins segir í tilkynningu, að hann telji skynsamlegast að aflamark í þorski fyrir næsta fiskveiðiár verði 150 þúsund tonn en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til 130 þúsund tonna aflamark.
Þá vill flokkurinn, að samhliða þessum niðurskurði, úr 193 þúsund tonnum, verði gripið til aðgerða til að milda áhrifin á sjávarbyggðir og sjávarútveg.
Þær aðgerðir feli m.a. í sér öfluga vaxtasamninga, bættar samgöngur til stækkunar atvinnusvæða og enn frekari þróun atvinnulífsins á landsbyggðinni.
Ályktun þingflokksins er eftirfarandi:
Á undanförnum árum hefur ekki náðst viðunandi árangur við uppbyggingu þorskstofnsins. Auka þarf þekkingu okkar á vistkerfi sjávar með auknum rannsóknum. Kanna þarf sérstaklega áhrif hvalastofna, veiðiaðferða, veiðarfæra og veiðitímabila auk innbyrðis samspils hinna ýmsu stofna. Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að 400 milljónum kr. verði árlega veitt á kjörtímabilinu í sérstakt átaksverkefni í þessum tilgangi.
Við úthlutun aflamarks á þorski þarf að taka tillit til þeirrar markaðsstöðu sem tekist hefur að byggja upp á löngum tíma. Einnig þarf að taka tillit til hlutdeildar þorsks sem meðafla í veiðum á öðrum tegundum. Erfitt verður að ná ráðlögðum ýsukvóta án þess að talsvert magn af þorski veiðist með. Ef aflamark í þorski er fært of langt niður gæti það haft í för með sér annað tveggja: að ráðlagður ýsukvóti næst ekki eða að líkur á brottkasti aukast. Auka þarf eftirlit með veiðum og löndun sjávarfangs til að tryggja undirstöður aflamarkskerfisins.
Aldrei hefur verið jafn mikilvægt og nú að traust ríki milli aðila í sjávarútveginum og að sem mest sátt sé um allar ákvarðanir um heildarafla. Þingflokkurinn leggur því til að stofnað verði fagráð vísindamanna, útvegsmanna og sjómanna sem hafi það verkefni að fara yfir þær rannsóknir og aðferðir sem eru grundvöllur að veiðiráðgjöf. ICES, Norðuratlantshafsfiskveiðiráðið, hefur ráðlagt heildaraflamark þorsks fyrir almanaksárið 2008, 152 þúsund tonn, en sú ráðgjöf byggir á þeirri veiðireglu sem innleidd var árið 1995.
Þingflokkur framsóknarmanna telur skynsamlegast í ljósi stöðunnar að aflamark í þorski fyrir næsta fiskveiðiár verði 150 þúsund tonn. Samhliða þessum niðurskurði, úr 193 þúsundum tonna verði gripið til aðgerða til að milda áhrifin á sjávarbyggðir og sjávarútveg.
Þingflokkurinn telur mikilvægt að ríkisstjórnin grípi til almennra byggðatengdra aðgerða sem m.a. feli í sér öfluga vaxtasamninga, bættar samgöngur til stækkunar atvinnusvæða og enn frekari þróun atvinnulífsins á landsbyggðinni.