Skrifað var í dag undir áframhald samnings um staðlaða gæða- og öryggiskönnun á íslenskum vegum undir merkjum EuroRAP. Umferðarstofa og Vegagerðin styrkja verkefnið en Félag íslenskra bifreiðaeigenda sér um framkvæmdina hér á landi.
EuroRAP eru samtök 25 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu sem voru stofnuð árið 2000. Auk þess eru 14 opinberar stofnanir nokkurra Evrópulanda stuðningsaðilar að EuroRAP.
Hlutverk EuroRAP er að gera gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt stöðluðum aðferðum. Veittar eru stjörnur fyrir öryggi vega, mest fimm.
FÍB hefur fengið bíl til verkefnisins, af gerðinni Mercedes Benz B-200. Á síðasta ári voru mældir rúmlega 550 km af vegakerfinu, þar á meðal þjóðvegur 1 frá Reykjavík norður í Hrútafjörð og suðurleiðin austur á Skeiðarársand. Þá voru Þingvallavegur og leiðin að Gullfossi og Geysi teknar út.