Þúsaldarmarkmiðin: Til skammar hvernig íslensk stjórnvöld hafa hagað sér

"Heimurinn vill ekki ný loforð heldur að gömlu loforðin séu efnd"sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri S.Þ á blaðamannafundi í Genf í morgun Reuters

Eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur rosabjork@mbl.is

Aðeins 5 ríki hafa í heiminum hafa náð því markmiði að 0,7% þjóðarframleiðslu sé varið í þróunaraðstoð. Þrjú af þessum fimm ríkjum eru norræn ríki. „Hinsvegar er það til skammar hvernig íslensk stjórnvöld hafa hagað sér" segir upplýsingafulltrúi S.Þ. fyrir Evrópu, vegna svikinna loforða Íslands um að auka framlög sín til þróunarmála.

Í dag gefa Sameinuðu þjóðirnar út skýrsluna Þúsaldarmarkmiðin um þróun - Skýrsla 2007. Tilefnið er að sá tími er hálfnaður sem þjóðir heims gáfu sér árið 2000 til að uppfylla Þúsaldarmarkmið um þróun. Í skýrslunni kemur fram að verulegur árangur hefur náðst í að helminga örbrigð og að nokkur framþróun hefur orðið í að minnka fátækt í heiminum. Hinsvegar sé það ljóst að átta markmið sem þjóðir heims settu sér munu ekki nást.

Helstu merki um árangur eru t.a.m. að fleiri börn í þróunarríkjum ganga í skóla, ungbarnadauði hefur minnkað um heim allan, berklafaraldur er í rénum og aðgerðir gegn malaríu hafa náð útbreiðslu. Það sem ekki hefur gengið sem skyldi má nefna að meira en hálf milljón kvenna deyr á ári hverju vegna vandkvæða í meðgöngu og fæðingu, helmingur íbúa þróunarríkja hefur engan aðgang að hreinlætisaðstöðu og fjöldi þeirra sem létust úr eyðni fjölgaði frá árinu 1991.

Engin teljandi aukning á opinberri þróunaraðstoð síðan 2004

Árið 2000 gekkst nánast hvert einasta ríki heims undir skuldbindingar um auknar aðgerðir í þróunaraðstoð. Síðan þá hafa aðeins 5 ríki náð takmarki Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% hlutfall þjóðarframleiðslu ríkja fari í þróunaraðstoð. Víða er líka pottur brotinn hvað varðar loforð um aukinn fjárútlát. Til að mynda jókst þróunaraðstoð við Afríkuríki sunnan Sahara aðeins um 2% frá árinu 2005 og 2006 og opinber þróunaraðstoð í heiminum minnkaði reyndar 5,1% á þessu eina ári, þrátt fyrir að leiðtogar helstu iðnríkja heims hafi heitið því í Gleneagles 2005 að tvöfalda aðstoð sína við Afríku.

Íslensk stjórnvöld hafa svikið sínar skuldbindingar

„Það er ekkert upp á íslenskan almenning að klaga þegar kemur að framlögum í þróunarmál" sagði Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum á blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt íslenskum blaðamönnum. „Það er hinsvegar til skammar hvernig íslensk stjórnvöld hafa hagað sér," Þar á hann við að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn staðið við loforð sín um að auka fjárframlög til þróunarmála upp í 0,7% hlutfall þjóðarframleiðslu. Hann segir íslensk stjórnvöld hafa lofað því á þremur leiðtogafundum að hækka framlög til þróunarmála en svikið þau loforð. Hann bendir lík á að íslensk stjórnvöld séu langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðum hvað þetta varðar. Dæmi um það er að íslensk stjórnvöld ætli sér að leggja 0,35% af þjóðarframleiðslu í þróunarmál árið 2009 á meðan Svíþjóð, Noregur og Danmörk setji sér það markmið að verja 0,8% þjóðarframleiðslu sinnar í þróunaraðstoð.

Þúsaldarmarkmiðin-Skýrsla 2007

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka