Tókst að laga símann

Brandur liggur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri með bólgur, skrámur …
Brandur liggur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri með bólgur, skrámur og brotinn handlegg. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Brandur Þorgrímsson, 16 ára hjólreiðapiltur sem féll 11 metra fram af brúnni á Laxárvirkjun á föstudag, segir orsök slyssins hafa verið þá að hann rakst á láréttan bjálka við brúarhandriðið þegar hann kom hjólandi á talsverðri ferð inn á brúna. Hann liggur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri með bólgur, skrámur og brotinn handlegg, en slapp að öðru leyti.

„Ég sá að hjólið myndi strjúkast við bjálkann en hélt að ég myndi hrökkva til hliðar ef svo færi að ég rækist í hann," segir hann. „En í stað þess að hrökkva til hliðar fór ég yfir brúarhandriðið og reyndi þá að grípa báðum höndum utan um handriðið, þá kominn á hvolf. Í loftinu snerist ég við og lenti því ekki á höfðinu, heldur valt niður."

Lenti á birkitré

Brandur lenti á birkitré sem tók af honum fallið og þaðan féll hann niður á klettasnös áður en hann féll út í ána, eða öllu heldur grýttan árfarveginn. „Ég bjóst ekki við að ég myndi standa upp eftir að ég var lentur en hélt samt meðvitund. Þegar ég áttaði mig á að ég væri á lífi var mín fyrsta hugsun sú að ég yrði að fá hjálp því ég kæmist ekki upp af sjálfsdáðum."

Brandur reif af sér bakpokann, náði í farsímann og tókst að lagfæra laskaðan símann, krafla sig upp á bakkann og hringja í móður sína. Ræsti hún út vaktmann Laxárvirkjunar og björgunarlið. „Þegar Andrés vaktmaður kom, þá varð ég rólegri og var ekki lengur hræddur um að ég ætti eftir að deyja löngum og kvalafullum dauðdaga niðri í á," segir Brandur.

Vill hann koma á framfæri kærum þökkum til allra björgunaraðila og starfsfólks á sjúkrahúsinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert