Ákærður fyrir tilraun til manndráps

Frá vettvangi við Bakkaveg í Hnífsdal
Frá vettvangi við Bakkaveg í Hnífsdal mbl.is/Halldór

Ríkissaksóknari hefur ákært byssumanninn í Hnífsdal fyrir tilraun til manndráps. Ákæra á hendur manninum var gefin út í gær. Í dag mun saksóknari fara fram á að gæsluvarðhald yfir manninum sem renna átti út í dag verði framlengt allt þar til dómur gengur í máli mannsins. Blaðið greinir frá þessu í dag.

Hann er ákærður fyrir að hafa skotið úr haglabyssu í átt að eiginkonu sinni á heimili þeirra þann 8. júní síðastliðinn og þannig ógnað lífi hennar. Eiginkonunni tókst að komast undan manninum en þó ekki án áverka því skotið fór svo nærri henni að flíkur sem hún var íklædd rifnuðu, auk þess sem hún hlaut minniháttar áverka.

Maðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert