Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að hann ætlaði að gefa sér tíma þar til um miðjan mánuðinn, eins og áður hefði verið boðað, áður en hann ákveður aflamark helstu nytjastofna, þar á meðal þorsks. Sagðist Einar ætla að nota tímann til að ræða ýtarlega við hagsmunaðila í sjávarútvegi.
Einar vildi lítið tjá sig um málið eftir ríkisstjórnarfundinn en sagði þó ljóst, að verulegur niðurskurður yrði á aflaheimildum. Hann sagði aðspurður, að ekki væri óeining innan ríkisstjórnarinnar um tillgögur Hafrannsóknastofnunar.
Gert er ráð fyrir því, að mótvægisaðgerðir vegna kvótaskerðingar verði kynntar á sama tíma og ákvörðunin um aflakvótann.
Ríkisstjórnarfundurinn hófst um hálfri stundu síðar en áformað var vegna þess að þingflokkur Samfylkingarinnar sat á fundi í morgun um kvótamálið og hugsanlegar mótvægisaðgerðir.