Mjög þurrt var á landinu í júní og raunar fádæma þurrt norðaustanlands, að sögn Veðurstofu Íslands. Aldrei hefur mælst jafnlítil úrkoma í júní á Akureyri og nú, en þar mældist mánaðarúrkoman aðeins 0,4 mm. Í maí 1933 mældist hins vegar engin úrkoma á Akureyri. Í Reykjavík var úrkoman nú 25 mm og er það um helmingur meðalúrkomu. Ámóta lítið rigndi í júní 1998 og heldur minna í júní 1997.
Nýliðinn júnímánuður var hlýr og þurr víðast hvar á landinu, að því er kemur fram í veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar. Hlýjast að tiltölu var á Vestfjörðum þar sem hiti var rúmum þremur stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 2000. Er mánuðurinn annar eða þriðji hlýjasti júní frá upphafi mælinga á þessum slóðum um aldamótin 1900.
Meðalhiti í Reykjavík var 10,7 stig og er það 1,7 stigum yfir meðallagi. Þetta er fimmti hlýjasti júní í Reykjavík síðastliðin 130 ár, en hlýrra var bæði 2002 og 2003. Júní 2003 var sá hlýjasti. Á Akureyri var meðalhitinn einnig 10,7 stig og er það 1,6 stigum ofan meðallags. Hlýrra var í júní í fyrra á Akureyri og mun hlýrra varð 1933. Á Hveravöllum var meðalhitinn 7,7 stig og hefur ekki orðið hærri frá upphafi mælinga þar 1965.
Tiltölulega hlýtt var um land allt og hiti víðast hvar 1 til 2 stig yfir meðallagi, 1,2 stigum ofan þess á Dalatanga, 2,3 stigum á Kirkjubæjarklaustri, 1,5 stigum á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og 2,1 stigi ofan meðallags í Stykkishólmi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,9 stig.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 195 og er það 34 stundum yfir meðallagi, langt frá meti. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 217 og er það 40 stundum umfram meðallag, fleiri sólskinsstundir mældust á Akureyri í júní 2001.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 23 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 9. júní. hæstur hiti á mönnuðum skeytastöðvum var 21,0 stig á Raufarhöfn og á Skjaldþingsstöðum þann 5.
Mest frost mældist á Gagnheiði þann 12. eða -3,7 stig, en á mönnuðu skeytastöðvunum varð hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum, -0,3 stig aðfaranótt þess 12.