Ellefu banaslys á síðasta ári rakin til ölvunar eða fíkniefnaneyslu

Frá slysstað á Vesturlandsvegi á síðasta ári.
Frá slysstað á Vesturlandsvegi á síðasta ári. mbl.is/Júlíus

Áfengi eða fíkniefni voru orsakaþættir í að minnsta kosti ellefu banaslysum í umferðinni á síðasta ári, þar af voru níu ökumenn, einn gangandi vegfarandi og einn hestamaður. Í einu tilfellinu var ökumaður, sem lést í hörðum árekstri, undir mjög miklum áhrifum ólöglegra fíkniefna, svo miklum að það taldist vera yfir eitrunarmörkum. Þetta kemur fram í skýrslum Rannsóknanefndar umferðarslysa um slysin.

Meðal slysanna, sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur rannsakað, er árekstur, sem varð á Vesturlandsvegi í desember sl. en þá ók ökumaður fólksbíls yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á jepplingi, sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður fólksbílsins lést og fólk sem var í jepplingnum slasaðist. Í ljós kom að ökumaður fólksbílsins var undir miklum áhrifum fíkniefna.

Í mars missti ökumaður, sem var í kappakstri við annan bíl á Sæbraut í Reykjavík, stjórn á bíl sínum og lenti á umferðareyju. Ökumaðurinn, sem ekki var í bílbelti, kastaðist út úr bílnum og lét lífið. Rannsóknarnefnd segir, að rannsóknir hafi sýnt að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis.

Í mars lést ökumaður bíls, sem lenti á húsvegg við Hjalteyrargötu á Akureyri. Rannsóknarnefndin segir, að ökumaðurinn hafi verið ölvaður þegar slysið varð.

Í maí lést ökumaður bifhjóls, þegar hjólið fór út af veginum í Kjósarskarði. Rannsókn leiddi í ljós, að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og lyfja þegar slysið varð og notaði hvorki hjálm né hlífðarfatnað.

Í desember lést ökumaður bíls, sem lenti á ljósastaur nálægt Stykkishólmi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar að ökumaðurinn var ölvaður þegar slysið varð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert