Bæjarstjórn Reykjanesbæjar útilokar ekki Orkuveitu Reykjavíkur sem einn samstarfsaðila bæjarins, en hefur lýst því yfir að hún kjósi frekar Geysi Green Energy sem aðalsamstarfaðila í rekstri Hitaveitu Suðurnesja. Samþykkt var í gærkvöldi að Reykjanesbær nýti sér forkaupsrétt sinn á Hitaveitunni Suðurnesja. Bæjarstjóri segir skynsamlegast að ræða málin og horfa fyrst of fremst á það hvernig stjórn Hitaveitunnar eiga að líta út í framtíðinni.
Reykjanesbær á 40% hlut í Hitaveitu Suðurnesja og ef hann fullnýtir sér forkaupsrétt sinn mun hluturinn verða 70%, en með 2/3 hluta getur bærinn breytt samþykktum og valið sér samstarfsaðila. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að sá samstarfsaðili yrði Geysir Green Energy.
Árni segir Geysi vera trúverðugur samstarfsaðili sem bæjarstjórnin treystir. Þá eru höfuðstöðvar Geysis í Reykjanesbæ og það sé hlutverk bæjarstjórnarinnar að skapa atvinnutækifæri í bænum. Hitaveita Suðurnesja skipti bæinn máli þar sem hún sé það fyrirtæki sem skapi hæstu meðaltekjur bæjarins.
„Það þarf núna að ræða málin og athuga hvað Orkuveitan vill,“ segir Árni um Orkuveitu Reykjavíkur, en hann ræddi við framkvæmdastjóra hennar í gærkvöldi í fyrsta sinn. „Við viljum vita hvers vegna Orkuveitan vill eignast ráðandi hlut, hvort það standist samkeppnislög og hver framtíðarsýn hennar er,“ segir bæjarstjórinn og útilokar Orkuveituna ekki sem einn samstarfsaðila Reykjanesbæjar.