Breiðavíkurnefndin svokallaða hyggst tala við alla þá sem vistaðir voru á drengjaheimilinu á Breiðavík á þeim árum sem talið er að ofbeldi hafi farið fram. Þetta kom fram í frétt Ríkisútvarpsins nú í morgun. Róbert Spanó, formaður nefndarinnar, segir nefndina hafa farið til Breiðuvíkur og kynnt sér aðstæður. Þá muni nefndin bráðlega hafa samband við fyrrum vistmenn og bjóða þeim að segja frá upplifun sinni.
Róbert sagði engan ekki bera skyldu til þess að tala við nefndina, en það væri grundvallaratriði fyrir hana að athuga hvort ofbeldi hafi farið fram. Að viðtölunum loknum mun nefndin fara yfir atriðin og ákveða hvað beri að gera.
Í rannsókn sem gerð var fyrr á árinu kom fram að nær allir sem dvöldust á drengjaheimilinu í Breiðavík á árunum 1953-1970 komust í kast við lögin eftir dvölina þar. Þá hefur maður, sem þangað var sendur tíu ára gamall, lýst vistinni á heimilinu í fjölmiðlum. Sagði hann m.a. að ofbeldi hafi verið daglegt brauð á drengjaheimilinu.