agnes@mbl.is
Fundur þingflokks Sjálfstæðisflokksins stóð í meira en tvo og hálfan tíma í gærkvöldi, frá um kl. 17.30 til kl. rúmlega 20, þar sem aðalumræðuefnið var ákvörðun sjávarútvegsráðherra um fiskveiðiheimildir fyrir næsta fiskveiðiár.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fóru fram langar og á stundum harðar umræður um hversu mikill niðurskurður þorskveiðiheimilda ætti að verða.
Hafró hefur lagt til að þorskveiðiheimildir verði skornar niður um u.þ.b. 30%, úr 193 þúsund tonnum í 130 þúsund tonn.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði á fundinum grein fyrir stöðu mála, tillögum ólíkra aðila, þ.e. Hafró, LÍÚ og Landssambands smábátaeigenda.
Hann gerði, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, enga grein fyrir því hver yrði hans endanlega ákvörðun, sem búist er við að hann kynni á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi í dag.
Mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins mun, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, ganga út frá því sem gefnu að ákvörðun sjávarútvegsráðherra verði mjög nálægt þeim tillögum sem Hafró hefur lagt fram.
Síðar í gærkvöldi hugðist sjávarútvegsráðherra funda með forystu samstarfsflokksins í ríkisstjórn, Samfylkingarinnar.