Sífellt fleiri leigubílar með öryggisútbúnað

Það virðist færast í vöxt að leigubílar hér á landi séu útbúnir öryggisútbúnaði til varnar gegn hvers kyns ofbeldisverkum sem geta átt sér stað inni í bílunum. Eitt af því sem kemur fólki spánskt fyrir sjónir er það sest upp í leigubíl er glerskilrúm á milli farþega og leigubílstjóra. Þrír leigubílar keyra nú um götur höfuðborgarsvæðisins útbúnir þessháttar glerskilrúmi.

Veitir öryggiskennd við aksturinn

Ástvaldur Pétursson, leigubílsstjóri hjá Bifreiðastöð Hafnarfjarðar, keyrir einn af þessum þremur leigubílum. Hann segir að um helgar geti verið mikið áreiti í bílnum og glerveggurinn veiti sér öryggiskennd við aksturinn. Hann segir farþega spyrja mikið um glerskilrúmið en yfirleitt taki þeir vel í þennan öryggisútbúnað. Ástvaldur segir skilrúmið ekki skapa meiri fjarlægð milli farþega og bílstjóra, hann segir ekkert hafa dregið úr spjalli í leigubílnum með skilrúminu, nú hækki hann bara röddina.

Björn Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Leigubílastöðvarinnar 5678910 sem varð til við samruna Aðalbíla, Bifreiðastöðvar Hafnarfjarðar og Nýju leigubílastöðvarinnar í Reykjavík, segir það stefnu fyrirtækisins að fjölga leigubílum með öryggisútbúnaði. Staðsetningartæki sé nú í öllum bílunum, sem veitir stöðinni upplýsingar um hvar bílarnir eru staddir og hvernig þeim er ekið. Í bígerð sé svo að tengja öryggishnapp við staðsetningartækið, þannig að bílstjóri geti ýtt á hnapp ef hann verður fyrir ofbeldi í bílnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert