Velferðarráð Reykjavíkur hefur ákveðið að hefja rekstur heimilis fyrir 8 heimilislausa karlmenn við Njálsgötu eigi síðar 1. október nk. Tillaga þessa efnis var samþykkt samhljóða á fundi ráðsins í dag en velferðarráð segir að brýn þörf sé fyrir húsnæði fyrir heimilislausa í borginni.
Skiptar skoðanir eru meðal íbúa við Njálsgötu og í næsta nágrenni um staðsetningu heimilisins. Í tilkynningu frá velferðarráði segir, að lengi hafi verið leitað að hentugu húsnæði undir starfsemina áður en ákveðið var að festa kaup á húseigninni við Njálsgötu. Tvenn rök hafi vegið þyngst í vali á húseigninni. Annars vegar að húseignin sé miðsvæðis í bænum og hins vegar að í húsnæðinu hafi áður verið rekið gistiheimili þannig að húsið hefur verið innréttað sem slíkt og henti því starfseminni vel.
Velferðarráð segist hafa ákveðið að koma til móts við gagnrýnisraddir íbúa í nágrenninu með því fækka heimilismönnum um 2, heimilismenn verða því 8 en ekki 10 eins og áður var gert ráð fyrir. Öflugt samstarf verði við lögreglu um vakt í hverfinu, skapaður verði grundvöllur fyrir reglulegri samvinnu við nágranna heimilisins og staðsetning heimilisins verði endurskoðuð að ári liðnu með tilliti til reynslunnar.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur þegar sent út bréf til íbúa við Njálsgötu og næsta nágrennis þar sem ákvörðunin er kynnt nánar. Segist ráðið vona, að sátt geti ríkt um rekstur heimilis fyrir heimilislausa við Njálsgötu.