Persónuvernd hefur hafnað beiðni landlæknis um leyfi til að veita aðgang að upplýsingum úr fæðingaskrá, sem og gögnum um fóstureyðingar, sem safnast hafa hjá embættinu, í þágu rannsóknarinnar Langtímaáhrif ráðgjafar um getnaðarvarnir á óráðgerða þungun og notkun getnaðarvarna meðal kvenna sem farið hafa í fóstureyðingu.
Persónuvernd barst umsókn um heimild til vinnslu persónuupplýsinga vegna framangreindrar rannsóknar. Verkefnið er framhald af eldra verkefni, sem unnið var á grundvelli leyfis frá forvera Persónuverndar, tölvunefnd. Það leyfi var m.a. bundið því skilyrði að öll nafngreind gögn, þ. á m. greiningarlykill og samþykkisyfirlýsingar, yrðu eyðilögð að lokinni úrvinnslu og eigi síðar en 1. október 1999.
Persónuvernd segir á heimasíðu sinni, að samkvæmt umsókninni nú hafi hins vegar staðið til að vinna frekar með umrædd gögn, m.a. afla frekari upplýsinga um þær konur, sem tekið höfðu þátt í fyrri rannsókn. Yrðu þær upplýsingar sóttar í fæðingaskrá og gagnasafn landlæknis um fóstureyðingar.
Umsóknin var einnig send vísindasiðanefnd, sem hafnaði henni vegna þess að ekki væri gert ráð fyrir að leita eftir samþykki kvennanna sem um ræðir og þar sem í fyrri rannsókn frá 1999 hefði verið tekið fram að öllum gögnum yrði eytt og þannig ótvírætt gefið í skyn að gögnin yrðu ekki notuð í öðrum tilgangi en þar kom fram.
Í bréfum landlæknisembættisins til Persónuverndar kom hins vegar fram, að þrátt fyrir að tilskilin leyfi lægju ekki fyrir hefði aðgangur að umræddum gögnum hefði þegar verið veittur fyrir mistök. Tekið hefði verið á málinu sem öryggisfráviki og öllum gögnum verið eytt. Þá gerði landlæknir grein fyrir þeim ráðstöfunum sem hann hefði gripið til í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig.
Eftir sem áður lá fyrir beiðni landlæknisembættisins um heimild til þess að veita aðgang að upplýsingum úr fæðingaskrá og gögnum um fóstureyðingar. Persónuvernd synjaði beiðninni á þeirri forsendu, að hvorki væri fyrirhugað að fræða konurnar um umrædda vinnslu né að afla samþykkis þeirra. Þá lá fyrir, að þegar gagna var aflað árið 1999 var konunum heitið því, að farið yrði með upplýsingarnar sem trúnaðarmál og þeim eytt að lokinni úrvinnslu.
Í ljósi ábendinga landlæknis sjálfs um misbresti á öryggi var heldur ekki talið að skilyrði laga um persónuvernd um viðeigandi öryggi væri uppfyllt.
Fyrirhugað var að fara í gögn um 4600 aðgerðir en aðeins var þörf upplýsinga um 380 konur. Því þótti ekki uppfyllt það skilyrði laga, um að vinnsla persónuupplýsinga skuli ekki vera umfram það sem nauðsyn krefur í þágu tilgangs.