Fatlaðir sumarstarfsmenn fá ekki full laun

Fatlaðir fá ekki full laun fyrir sumarvinnu.
Fatlaðir fá ekki full laun fyrir sumarvinnu. mbl/Friðrik Tryggvason
Eftir Evu Bjarnadóttur evab@mbl.is

Íþrótta- og tómstundaráð sér um rekstrarþátt sumarstarfs ungs fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og hafa ungmennin starfað frá því árið 2001 við garðavinnu á Miklatúni. Í sumar fór af stað tilraunaverkefni sem miðar að því að auka fjölbreytni sumarvinnu fyrir fatlaða einstaklinga, en sumir höfðu unnið við garðavinnuna í samtals sjö sumur.

„Við breyttum til í ár tókum þau úr Vinnuskólanum og hófum að undirbúa þau fyrir atvinnumarkaðinn,“ segir Kristinn Ingvarsson, deildarstjóri Sérsveitar Hins hússins. Hann segir krakkana fá leyfi til þess að starfa innan ólíkra fyrirtækja og stofnana og spreyta sig í störfum sem þau hafa áhuga á. Það sem vekur þó athygli er að fyrirtækin borga ekki laun þeirra.

„Starfið snýst ekki um að leysa starfsmann af heldur að kynnast áhugaverðu starfi t.d. vinna einhverfir einstaklingar hjá Póstinum, þar sem flokkun og útburður hentar þeim vel,“ segir Kristinn. „Þetta hefur gengið mjög vel - krakkarnir fá skemmtileg verkefni og vonandi verður hægt að semja við fyrirtækin aftur á næsta ári,“ bætir hann við.

Ungmennin vinna 17,5 klst. á viku, en komið hefur í ljós að þau fá aðeins greitt fyrir 14 klst. Áður voru launagreiðslur á höndum Vinnuskólans í Reykjavík en í sumar greiðir Svæðisskrifstofa fatlaðra laun þeirra. Upphæðin sem hafði verið eyrnamerkt verkefninu reyndist hins vegar of lág og fá þau þess vegna lægri laun. Leiðbeinendur þeirra fá hins vegar greidd full laun.

„Upphaflega ætluðum við að borga þeim full laun en ásóknin varð meiri en við bjuggumst við,“ segir Árni Már Björnsson umsjónarmaður verkefnisins hjá Svæðisskrifstofu fatlaðra í Reykjavík. 40 manns stunda nú sumarvinnu á vegum skrifstofunnar. „Við viljum gjarnan greiða þeim full laun en erum háð fjárlagaramma.“

Árni segir verkefnið enn vera á tilraunastigi og þegar í ljós hafi komið að ekki væri til nægur peningur hafi valið staðið á milli þess að veita færri einstaklingum tækifæri til að taka þátt eða að greiða lægri laun. Aðspurður segir hann Svæðisskrifstofu fatlaðra ekki hafa leitað sérstaklega eftir aukafjárveitingu og haldið sig við eyrnamerkt fjármagn vegna óvissu um tímafjölda og fjölda þátttakenda. Um 1/4 vantar upp á svo hægt sé að greiða full laun, eða um hálfa til eina milljón krónur. „Ef við eigum aukafjármagn í haust munum við leiðrétta þetta og munum reyna næst að hafa launin eins og við viljum sjá þau,“ segir Árni Már að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka