Fyrsta íslenska járnkonan

Bryndís Baldursdóttir
Bryndís Baldursdóttir

Bryndís Baldursdóttir kláraði Ironman-keppnina í Frankfurt á sunnudaginn, fyrst íslenskra kvenna. Að sögn Bryndísar ákvað hún að taka þátt í keppninni fyrir einu og hálfu ári. Hún byrjaði á því að keppa í hálfri Ironman-keppni í Arizona í Bandaríkjunum í október á síðasta ári. Eftir áramót byrjaði hún á áætlun sem fól í sér æfingar frá 8 klst. á viku upp í 18 klst. en hún tók þrjár æfingar í viku í hverri grein.

Fyrir sjö vikum lenti Bryndís í óhappi sem setti strik í reikninginn. Einn morguninn þegar hún var að hjóla í vinnuna steyptist hún af hjólinu og viðbeinsbrotnaði. "Ég sat og skældi eins og krakki, þetta var svo vont. Ég var ekki mikil járnkona þá." Bryndís segir þetta hafa sett æfingaáætlun hennar úr skorðum en hún var svo ákveðin í að taka þátt í keppninni að það kom einfaldlega ekki til greina að gefast upp.

Bryndís segist hafa verið send heim af spítalanum með hægri höndina í fatla og þau fyrirmæli að vera kyrr í 5-7 daga. Að fimm dögum liðnum stóð hún upp, fór inn í stofu og gerði 500 hnébeygjur og 500 hnélyftur. Nokkrum dögum síðar var hún svo mætt í líkamsræktarsal þó að hún gæti ekki æft jafnmikið og hún þurfti.

Ætlar aftur að ári

Bryndís kláraði keppnina á tæpum 15 tímum og 25 mínútum en heildartímamörkin voru 16 klst. Hún segist stefna aftur á keppnina í Frankfurt að ári því hún vill vita hvað hún getur með heila öxl. "Það að fara í þessa keppni bara með annan handlegginn er ekkert svo langt frá lagi. Fólk hefur klárað þessa keppni einhent eða einfætt. Sá elsti sem kláraði heimsmeistaramótið á Hawaii í fyrra undir sautján tímum var 80 ára. Þátttaka í keppninni með viðbeinsbrot er því ekki óraunhæf."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert