Gefur 30 milljónir til vísindastarfs

Bent Scheving Thorsteinsson
Bent Scheving Thorsteinsson mbl.is

Bent Scheving Thorsteinsson hefur ákveðið að færa Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH) 30 milljónir króna að gjöf sem stofnfé í styrktar- og verðlaunasjóð á sviði hjartalækninga og hjarta- og lungnaskurðlækninga.

Bent Scheving Thorsteinsson segist færa LSH þessa gjöf af gefnu tilefni og sem þakklæti fyrir frábæra umönnun hjartalækna og hjarta- og lungnaskurðlækna.

Hlutverk og markmið Styrktar- og verðlaunasjóðs Bent Scheving Thorsteinsson er að veita styrki og verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir og ritgerðir og skylda starfsemi á sviði hjartalækninga og hjarta- og lungnaskurðlækninga.

Magnús Pétursson forstjóri LSH, Uggi Agnarsson hjartalæknir og Þórarinn Arnórsson hjarta- og lungnaskurðlæknir skipa fyrstu stjórn sjóðsins.

Bent Hillman Sveinn (Óskarsson) Scheving Thorsteinsson fæddist 12. janúar 1922 í Árósum í Danmörku. Foreldrar hans voru Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali í Reykjavík og Guðrún Sveinsdóttir, sem síðar giftist Óskari Þórðarsyni.

Bent Scheving varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og lauk B.SC.E prófi frá Wharton School of Finance and Commerce í University of Pennsylvania í Bandaríkjunum 1945 og stundaði nám við Wharton Graduate School of Finance and Commerce í þrjú misseri. Hann var við störf í viðskiptamálaráðuneytinu 1947, var deildarstjóri og fulltrúi skömmtunarstjóra 1947 – 1950, fulltrúi hjá póst- og símamálastjóra 1950 – 1953, starfsmaður Metcalfe Hamilton og síðar Hedric Grove á Keflavíkurflugvelli 1953 – 1957, fulltrúi hjá Rafmagnsveitum ríkisins 1957, deildarstjóri þeirra frá 1961 og fjármálastjóri til ársins 1984.

Frá 1984 til 1995 hafði Bent Scheving Thorsteinsson verðbréfaviðskipti að aðalstarfi. Hann hefur setið í stjórnum margra hlutafélaga og sinnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félög. Eiginkona hans er Margaret Ritter Ross Wolfe frá Pennsylvania í Bandaríkjunum. Þau bjuggu lengi í Bandaríkjunum en fluttu hingað til lands árið 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert