Iðnréttindi sex Pólverja viðurkennd

Menntamálaráðuneytið hefur viðurkennt iðnréttindi sex Pólverja, sem starfað hafa við byggingu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Fram kom í fréttum Útvarps, að ráðuneytinu hafi borist umsóknir frá verktakafyrirtækinu Hamri um að viðurkenna menntun 80 pólska starfsmanna.

Á annað hundrað Pólverjar starfa hjá Hamri, sem er undirverktaki hjá Bechtel. Mennirnir starfa ýmist sem verkamenn eða sinna störfum sem faglærðir iðnaðarmenn. Í byrjun apríl sótti verktakinn um að starfsmenntun 80 manna yrði viðurkennd af menntamálaráðuneytinu eftir að upp komst að um 30 þeirra störfuðu sem rafvirkjar við byggingu álversins án þess að Hamar hefði látið ráðuneytið viðurkenna starfsmenntun þeirra.

Útvarpið sagði, að af þessum 80 umsóknum um viðurkenningu á starfsmenntun þyki einungis 6 mannanna hafa lokið við nám svo þeir geti talist löggildir iðnaðarmenn. Ráðuneytið sendi 16 umsóknir til Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins til umsagnar. 2 umsóknum var alfarið hafnað, þar sem umsækjendurnir höfðu ekki nein tilskilin réttindi til að starfa sem rafvirkjar. 8 umsækjendur þóttu hæfir til að vinna við kapalvinnu og ýmis konar frágang en fengu ekki viðurkenningu til að vinna rafvirkjastörf. Af mönnunum 80 eru 36 þeirra farnir af landi brott án þess að málum þeirra hafi verið lokið og 28 umsóknir þóttu ófullnægjandi og bíður menntamálaráðuneytið eftir frekari gögnum varðandi þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert