Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti fundi með ráðherrum rúmlega tuttugu Afríkuríkja í tengslum við dagskrá leiðtogafundar Afríkusambandsins, sem fór fram í Accra, höfuðborg Gana, í byrjun vikunnar en Ingibjörg Sólrún var viðstödd setningu fundarins.
Meðal þess sem rætt var á þessum tvíhliða fundum voru málefni Afríku almennt, tengsl Íslands og viðkomandi ríkja, þróunarsamvinna, öryggismál, staða kvenna og alþjóðaviðskipti. Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var bæði kynnt og stuðningur fjölmargra Afríkuríkja við framboðið þakkaður. Um 60% þeirra mála sem koma inn á borð öryggisráðsins varða Afríku og kynnti Ingibjörg Sólrún sér sum þeirra frá fyrstu hendi ráðherra viðkomandi ríkja, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.
Meðal þeirra sem utanríkisráðherra fundaði með voru utanríkisráðherrar Eritreu og Eþíópíu. Samskipti landanna, sem háðu blóðugt og kostnaðarsamt stríð hafa verið mjög stirð og ræddu ráðherrarnir um þá stöðu, auk þess sem málefni nágrannaríkisins Sómalíu var rætt. Jarðhita er að finna í Eþíópíu og Eritreu og voru möguleikar á frekara samstarfi landanna á þeim vettvangi ræddir.
Utanríkisráðherra hitti einnig starfssystur sína frá Búrúndí, Antoinette Batumbwira, og ræddi um þær miklu áskoranir sem stjórnvöld í Búrúndí standa frammi fyrir eftir áralangt borgarastríð milli Tútsa og Hútúa. Síðasti uppreisnarhópurinn í landinu skrifaði undir vopnahlé á síðasta ári en borgarastríðið hófst 1993 og hafði m.a. ágerst vegna borgarastyrjalda í nágrannaríkjunum Rúanda og Austur-Kongó. Hundruð þúsunda flóttamanna eru á svæðinu.
Eftir að hafa átt fund með utanríkisráðherra Líberíu, George Wallace, var Ingibjörgu Sólrúnu boðið til fundar með forseta Líberíu, Ellen Johnson-Sirleaf. Á fundunum ræddu þær m.a. um stöðu kvenna og hvar þurfi einkum að herða baráttuna til að tryggja konum og börnum mannréttindi og frelsi. Alþjóðasamfélagið bindur miklar vonir við stjórn Johnson-Sirleaf, sem hefur einbeitt sér að útrýma spillingu og þjóðflokkaerjum í landinu.
Í tengslum við fundina í Accra átti Ingibjörg Sólrún viðræður við ráðherra frá eftirtöldum ríkjum: Botsvana, Búrkína Fasó, Búrúndí, Erítrea, Eþíópía, Fílabeinsströndin, Gabon, Gana, Kamerún, Kenía, Lesótó, Líbería, Malí, Máritanía, Mósambík, Níger, Suður-Afríka, Tansanía, Tógó, Tsjad og Úganda.