Landsbankinn í Smáralind fékk viðurkenningu jafnréttisnefndar Kópavogs

Guðrún Ólafsdóttir, útibússtjóri, tekur við jafnréttisviðurkenningu Kópavogs.
Guðrún Ólafsdóttir, útibússtjóri, tekur við jafnréttisviðurkenningu Kópavogs.

Landsbanki Íslands í Smáralind hlaut viðurkenningu jafnréttisnefndar Kópavogsbæjar í ár. Afhendingin fór fram í Bóksafni Kópavogs dag. Við sama tækifæri var opnuð örsýning um líf og störf Huldu Jakobsdóttur, fyrstu konu í embætti bæjarstjóra á Íslandi, en hún var bæjarstjóri í Kópavogi 1957-1962.

Jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar veitir nú jafnréttisviðurkenningu í sjötta sinn og er auglýst er eftir tilnefningum árlega.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir, að Landsbankinn hafi samþykkt sína fyrstu jafnréttisáætlun árið 1998 og nú fellt hana inní starfsmannastefnu sína, eins og heimilt sé samkvæmt jafnréttislögum. Stjórnendum sé ætlað að framfylgja starfsmannastefnunni í þeirra störfum og njóta ráðgjafar starfsmannasviðs í þeim málum.

Þetta þyki hafa tekist vel í útibúinu í Smáralind. Frá opnun þess haustið 2001 hafi Guðrún Ólafsdóttir byggt það upp og útibúið vaxið að umfangi. Það sé stefna Guðrúnar að taka mið af kynjasjónarmiðum við ráðningar og stöðuhækkun starfsfólks. Karlar eru um þriðjungur starfsmanna útibúsins og konur eru stjórnendur.

Sýning um störf Huldu
Í tilefni af því að nú eru liðin 50 ár frá því að Hulda Jakobsdóttir varð bæjarstjóri í Kópavogi, fyrst kvenna á Íslandi, var opnuð sýning um störf Huldu Jakobsdóttur í Bókasafni Kópavogs í dag.

Sýningin samanstendur af munum í eigu afkomenda Huldu Jakobsdóttur auk opinberra skjala sem geymd eru í Héraðsskjalasafni Kópavogs og málverki í eigu bæjarins. Sýningin verður opin í sumar.

Hulda Jakobsdóttir.
Hulda Jakobsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert