Yfir 100 keppendur tóku þátt í heimsmeistaramótinu í Hornafjarðarmanna sem fór fram á humarhátíðinni á Höfn um helgina. Fram kemur á fréttavefnum Hornafirði.is, að úrslitakeppnin hafi sjaldan verið jafn spennandi og í ár en á endanum stóð Halldór Pétursson frá Reykjavík uppi sem meistari, Magnús Hjartarson varð annar og Valgerður Sigurðardóttir endaði í þriðja sæti.
Það vakti athygli, að meistarinn frá 2006, Magnús Hjartarson, var nálægt því að verja titilinn en aðeins munaði einu priki á honum og Halldóri.
Næsta Hornafjarðarmannamót verður á Unglingalandsmóti UMFÍ á Hornafirði um verslunarmannahelgina. Þá verður reynt að setja Íslandsmet í þátttökufjölda á spilamóti. Ekkert þátttökugjald verður en áheit fyrir hvern þátttakanda mun renna til til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.