Viðskiptaráð segir, að endurvinnslutunnur, sem Reykjavíkurborg hóf nýlega að auglýsa undir pappírsúrgang fyrir einstaklinga, fyrirtæki og húsfélög, séu í beinni samkeppni við tvo einkaaðila, sem hafi um árabil boðið borgarbúum upp á svipaðar endurvinnslutunnur.
Viðskiptaráð segir í pistli á heimasíðu sinni, að endurvinnslutunnur Reykjavíkurborgar séu samkvæmt auglýsingu borgarinnar aukin þjónusta við borgarbúa og hluti af áætlun Reykjavíkurborgar um að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. En þrátt fyrir góð og göfug markmið framangreindrar áætlunar borgarinnar sé rétt að merkja, að þegar sé virk samkeppni til staðar á umræddum markaði. Tvö einkafyrirtæki hafi um árabil boðið borgarbúum uppá eðlislíkar endurvinnslutunnur. Séu borgaryfirvöld því að ráðast í beina samkeppni við einkaaðila og líkleg afleiðing sé sú, að fyrirtækin neyðist til að draga sig í hlé.
„Er það í hag Reykvíkinga að fjármunum þeirra sé ráðstafað í viðbótarþjónustu sem þegar er sinnt af einkaaðilum? Er slík röskun á samkeppni borgarbúum í hag? Viðskiptaráð leggur almennt áherslu á að sem flest verkefni á vegum sveitarfélaga séu boðin út. Engu að síður er afar óheppilegt að sveitarfélög bjóði út verkefni á þeim mörkuðum sem fyrir ríkir virk samkeppni einkaaðila. Ráðið hvetur sveitarfélög landsins til að endurskoða innkaupastefnur sínar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slíka samkeppnisröskun," segir í pistli Viðskiptaráðs.