Allt annað þjónustustig viðgengst í sjúkraflutningum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns í dag þar sem sjúkraflutningamaður á Ólafsvík líkir ástandinu við rússneska rúllettu.
Á vef Skessuhorns er ennfremur sagt að á nokkrum stöðum á landinu viðgangist sú vinnuregla að aðeins einn sjúkraflutningamaður sé á vakt í einu. Hafi komið upp tilfelli þar sem sjúkraflutningamenn hafi þurft að kalla eftir aðstoð vegfarenda til að bera sjúkrabörur og keyri oft langar leiðir einir með alvarlega veika sjúklinga. Haft er eftir Kristjáni Guðmundssyni, sjúkraflutningamanni í Ólafsvík, að þetta sé klárt brot á tilmælum Landlæknisembættisins þess efnis að ávallt skuli tveir menntaðir sjúkraflutningamenn fylgja sjúklingi.