Skrifað undir samning við Indverja um jarðskjálftarannsóknir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, skrifuðu undir …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, skrifuðu undir samninginn. Viðstaddir voru Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og Páll Halldórsson, sviðsstjóri eðlisfræðissviðs Veðurstofunnar.

Skrifað var í dag undir fyrsta áfanga samstarfssamnings milli utanríkisráðuneytisins og Veðurstofu Íslands um samstarf Íslands og Indlands á sviði jarðskjálftarannsókna.

Fyrsti áfangi verkefnisins mun taka um hálft ár. Á þeim tíma munu tveir indverskir vísindamenn heimsækja Ísland til að kynna sér tækni á Íslandi á sviði jarðskjálftamælinga og eftirlits og tveir íslenskir vísindamenn heimsækja Indland til að leggja grunninn að samstarfinu.

Að sögn utanríkisráðuneytisins hafa íslenskir jarðskjálftasérfræðingar á undanförnum árum haft forystu um að þróa tækni fyrir jarðskjálftaspár sem vakið hefur athygli víða um lönd. Aðferðin byggir í grundvallaratriðum á svokölluðum smáskjálftamælingum, þ.e.a.s. vöktun nær samfelldra smáskjálfta í jarðskorpunni til að fylgjast með breytingum, og fjölbreytilegum rannsóknum á sviði jarðvísinda með það að markmiði að spá fyrir um jarðskjálfta.

Umtalsverð jarðskjálftavirkni er á Indlandi, t.d. í Himalajafjöllunum, og telja íslensk og indversk stjórnvöld að samstarf um jarðskjálftaspár geti nýst báðum ríkjum í vísindalegu og hagnýtu tilliti.

Veðurstofa Íslands mun annast samstarfið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri tengjast verkefninu, auk utanríkisráðuneytisins sem undirbúið hefur viljayfirlýsinguna og mun standa straum af kostnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert