Þurrum góðviðriskafla að ljúka - skin og skúrir um helgina

Þurrum góðviðriskafla er að ljúka. Samkvæmt veðurspá er dagurinn í dag líklega sá síðasti um hríð sem íbúar suðvesturhornsins geta sleikt sólina, líkt og þeir hafa gert síðustu daga. Því er um að gera að njóta sólarinnar og hitans eins og gestir ylstrandarinnar í Nauthólsvík gerðu þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar,veðurfræðings, sýnir veðurspá fremur vætusama daga á næstunni á Suðaustur-og Suðvesturlandi en annars staðar skiptast á skin og skúrir um allt land. Hlýtt loft kemur úr austri og norðaustri sem er nokkuð óvenjulegt.

Skin og skúrir þann 7.júlí

Helgarspáin lítur því þannig út núna að það verður fremur hlýtt um land allt. Miklar líkur eru á að aðfaranótt hins vinsæla brúðkaupsdags 7.júlí fari úrkomusvæði yfir allt landið en líkur á sólskini eru mestar á Norðurlandi, Norðvesturlandi og inn til landsins. Verðandi brúðhjón á suðvesturhorninu geta því búist við hlýjum en skýjuðum brúðkaupsdegi en brúðhjón og gestir þeirra annars staðar á landinu eiga meiri möguleika á sólskini. Það skiptast því á skin og skúrir þann daginn, líkt og alla aðra daga í hjónaböndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert