Miklar tjörublæðingar eru nú á Þingvallavegi, frá Vinaskógi að Grafningsvegamótum. Vegagerðin biður fólk að aka þar á undir fimmtíu kílómetra hraða. Guðmundur Vignir Þórðarson yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni sagði að trúlegast væri um tilraunakafla að ræða og verið væri að bera sand í vegakaflann en hann telur að hitanum sé um að kenna.
„Þetta er mjög leiðinlegt en þetta getur gerst þegar hitinn er kominn upp í 23 gráður, við erum að bera sand í þetta og hægja á umferðinni," sagði Guðmundur Vignir. Hann taldi að vandinn myndi ekki leysast að fullu fyrr en sólin tæki að ganga til viðar og yfirborð vegarins færi að kólna.