elva@mbl.is
„Við erum ósátt við það að þarna skuli vera gerð breyting á aðalskipulagi með þessum hætti," segir Árni Jónsson, sem býr í námunda við fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir á Nónhæð og við Arnarsmára í Kópavogi. Á íbúafundi í síðustu viku voru kynnt áform lóðarhafa um að reisa fjölbýlishús á svæðinu, en tillagan hefur enn ekki verið auglýst samkvæmt reglum um breytingar á skipulagi. Umrætt landsvæði er rétt við Garðabæ og afmarkast m.a. af Arnarnesvegi í suðri og Smárahvammsvegi í austri. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Kópavogs er þar gert ráð fyrir grænu svæði og um tíma voru áform um að þar risi bænahús Baháía.
Þá gagnrýni íbúar svæðisins að lítið samráð hafi verið haft við þá. Fimm ár séu síðan stjórnendur leikskóla í námunda við hið fyrirhugaða byggingasvæði fengu að vita af byggingaráformum. Enginn hafi hins vegar talað við íbúana og það virðist heldur ekki hafa staðið til. Hann bendir einnig á að íbúum muni fjölga til muna á svæðinu. Skipulagið feli í sér "um það bil þúsund manna byggð, sem er tvöföldun á þeirri byggð sem fyrir er. Þeir hafa ekki sýnt fram á það hvernig þeir ætla að vera með mótvægisaðgerðir gagnvart umferð, hávaða og mengun, svo dæmi sé tekið," segir Árni. Þær lausnir sem Kópavogsbær hafi þó kynnt í umferðarmálum séu hugsanlega ekki nógu öruggar. Á kynningarfundinum í síðustu viku hafi bæði bærinn og fulltrúar verktaka farið yfir það sem stefnt er að að gera á lóðunum og íbúar hafi borið fram spurningar. Íbúar séu ósáttir við hvernig fulltrúi bæjarins lagði málin á borðið fyrir þá.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.