1729 klamydíutilfelli á síðasta ári

Árið 2006 greindust samtals 1729 klamydíutilfelli á Íslandi, sem er lítilsháttar aukning miðað við árið á undan. Landlæknisembættið segir, að sýkingin hafi oftar greinst hjá konum en körlum og var kynjahlutfall nokkuð stöðugt milli ára.

Sýkingin greindist oftast hjá aldurshópnum 20– 24 ára, en fólk á aldrinum 15–19 ára fylgdi í kjölfarið. Flest tilfellin voru meðal fólks á aldrinum 18–19 ára. Sýkingum fækkaði síðan að nýju eftir 25 ára aldurinn og varð sjaldséðari með hækkandi aldri.

Fram kemur í ársskýrslu landlæknisembættisins, að á seinni hluta síðasta árs greindu Svíar frá nýjum stofni klamydíu sem náð hefur útbreiðslu í Svíþjóð en hafði ekki greinst með þeim aðferðum sem höfðu verið notaðar fram að því.

Hafin var rannsókn á sýklafræðideild Landspítala - háskólasjúkrahúss til að athuga hvort þessi stofn hefði borist hingað til lands. Leitað var að nýja stofninum í yfir 1000 sýnum, sem send voru til klamydíurannsókna, og greindist klamydía í um 10% sýnanna. Svo virðist sem innan við 2% af jákvæðum sýnum séu af nýja stofninum. Fyrstu niðurstöður benda því til þess að stofninn hafi ekki náð útbreiðslu hérlendis.

Lekandatilfellum fjölgar
Alls greindist 31 einstaklingur með lekanda á sýklafræðideild LSH á árinu 2006 og var það mikil aukning frá árinu 2005. Sýkingin greindist oftast í aldurshópnum 20–24 ára og voru karlmenn í meirihluta.

Landlæknisembættið segir, að svo virðist sem meirihluti smitaðra hafi smitast á Íslandi og sé það nýlunda miðað við fyrri ár þegar nánast allt lekandasmit átti uppruna sinn erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert