Foreldrar fagna niðurstöðu Mannréttindadómstóls

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Reuters
Eftir Evu Bjarnadóttir evab@mbl.is

Eggert Ísólfsson, faðir Söru Lindar Eggertsdóttur sem Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði bætur í dag, fagnar niðurstöðu dómstólsins og segir hann staðfesta það sem þau foreldrarnir vissu alltaf, að Hæstiréttur Íslands hafi haft af dóttur þeirra réttmætar bætur. Eggert segir dóminn jafnframt áfellisdóm á Hæstarétt og spyr hvort hægt sé að leggjast lægra heldur en að brjóta mannréttindi fjölfatlaðs barns.

„Málið hefur verið í gangi síðan ég sendi kvörtunarbréf til landlæknis í júlí 1998, fyrir níu árum síðan,“ segir Eggert. Sex ár liðu þar til fjölskyldan fór með málið til Mannréttindadómstólsins, eftir að Hæstiréttur snéri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um bótaskyldu ríkisins. Í dag, þremur árum síðar, komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu, að stúlkan hefði mátt gera ráð fyrir að umfjöllun læknaráðs um málið hafi ekki verið hlutlaus í ljósi þess að fjórir þeirra sem sátu í ráðinu störfuðu hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Eggert segir þetta hafa verið gífurlega langa göngu og bendir á að ekki sé auðvelt að vinna mál fyrir Mannréttindadómstólnum, þar sem flestum málum, sem dómstóllinn fær til umfjöllunar, er vísað frá.

„Þetta hlýtur að vera áfellisdómur fyrir Hæstarétt Íslands og það er spurning hvort hægt sé að leggjast lægra en að brjóta mannréttindi fjölfatlaðs barns og hafa af því réttmætar bætur. Þetta hlýtur að rýra álit á réttarkerfi þessa lands,“ segir faðir stúlkunnar að lokum.

Lögmaður fjölskyldunnar, Heimir Örn Herbertsson, sagði við Útvarpið, að hann íhugaði að sækja um skaðabætur frá ríkinu handa stúlkunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert