Pétur Óskarsson, forsvarsmaður samtakanna Sólar í Straumi hefur sent forstjóra Alcan á Íslandi bréf þar sem óskað er svara við spurningum um söfnun persónuupplýsinga í aðdraganda íbúakosninga í Hafnarfirði í vor. Segir Pétur að m.a. þurfi að fást svör við því af hverju starfsmenn Alcan áttu að safna persónuupplýsingum um meðlimi Sólar í Straumi og til hvers átti að nota þessar upplýsingar.
Þetta kemur fram í eftirfarandi yfirlýsingu, sem Pétur skrifar undir:
Þann 14. mars 2007 sendu fulltrúar í stjórn Sólar í Straumi formlega fyrirspurn til Rannveigar Rist forstjóra Alcan á Íslandi hf. á grundvelli laga um persónuvernd þar sem m.a. var farið fram á að stjórnin yrði upplýst um hvort að skráðar hafi verið persónuupplýsingar um einstaka stjórnarmeðlimi. Samkvæmt 18 gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000 eiga einstaklingar skýran rétt á því að fá að vita hvaða persónuupplýsingar ábyrgðaraðili hefur skráð. Fyrirspurn okkar hefur til dagsins í dag ekki verið svarað.
Forstjóri Alcan á Íslandi þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum og svara eftirfarandi spurningum:
Fyrir Hafnfirðinga, meðlimi Sólar í Straumi og íbúa þeirra sveitarfélaga sem boðið hafa Alcan lóð undir starfsemi sína er mikilvægt að öll spilin verði lögð á borðið á næstu dögum. Friðhelgi einkalífs er eitt af verðmætustu gildum okkar samfélags. Fyrirtæki og einstaklingar sem þeim stjórna eiga ekki að komast upp með að svívirða grunngildi okkar samfélags átölulaust.