Páll E. Winkel, aðstoðarríkislögreglustjóri, segir að greiningardeild ríkislögreglustjóra sé með mál verkfræðinema frá Indlandi til skoðunar en eins og Fréttavefur Morgunblaðsins greindi frá í morgun leitar lögreglan í Bretlandi verkfræðinema frá Indlandi í tengslum við misheppnuðu hryðjuverkaárásirnar sem gerðar voru í Lundúnum og Glasgow síðustu helgi.
Maðurinn, sem heitir Kafeel Ahmed, er jafnvel talinn vera staddur í fríi á Íslandi, en ekki hefur náðst í hann, sagði í frétt indverska dagblaðsins The Hindu í gærkvöldi.
Páll sagðist ekki geta tjáð sig frekar um málið við fjölmiðla að svo stöddu.