Mannréttindadómstóllinn úrskurðar íslenskri stúlku bætur

Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg.
Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg. mbl.is/GSH

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að níu ára gömul íslensk stúlka, sem veiktist strax eftir fæðingu árið 1998 og fékk alvarlegar heilaskemmdir, skuli fá tæplega 6,4 milljóna króna skaðabætur og rúmlega 1,5 milljónir króna í málskostnað þar sem brotið hefði verið gegn réttindum stúlkunnar þegar Hæstiréttur fjallaði um skaðabótamál sem forsvarsmenn stúlkunnar höfðuðu fyrir hennar hönd.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma, að 100% örorku stúlkunnar mætti rekja til mistaka lækna og dæmdi henni rúmlega 28 milljónir í bætur en Hæstiréttur snéri þeim dómi við og sýknaði ríkið.

Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína einkum á umsögn læknaráðs og taldi að heilaskemmdir, sem stúlkan varð fyrir, samræmdust því að hún hefði orðið fyrir súrefnisskorti. Taldi Hæstiréttur, að sterkar líkur hefðu verið leiddar að því að stúlkan hefði orðið fyrir súrefnisskorti fyrir fæðingu og var ekki ekki talið að orsakasamband væri á milli legu leggs, sem þræddur hafði verið í slagæð stúlkunnar, og heilaskemmda hennar. Hefði því ekki verið sýnt fram á að tjón stúlkunnar mætti rekja til mistaka starfsfólks Landspítala-háskólasjúkrahúss.

Mannréttindadómstóllinn segir í niðurstöðu sinni, að stúlkan hefði með réttu getað óttast, að læknaráð væri ekki með öllu hlutlaust í umfjöllun sinni um málið fyrir Hæstarétti í ljósi þess, að fjórir þeirra sem sátu í læknaráði störfuðu hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Var dómstóllinn sammála um, að brotið hefði verið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um rétt manna til málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli og dæmdi stúlkunni bætur og málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert