Sjálfstæð gagnaöflun Hæstaréttar barn síns tíma

Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg.
Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg. mbl.is/GSH
Eftir Evu Bjarnadóttur evab@mbl.is
Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður sem fór með mál Söru Lindar Eggertsdóttur fyrir Mannréttindadómstólnum, segir niðurstöðu dómstólsins gefa tilefni til þess að endurskoða fyrirkomulag Hæstaréttar og Læknaráðs. Hann segir sjálfstæða gagnaöflun Hæstaréttar vera barn síns tíma og vonar að Alþingi breyti lögum þess efnis í framhaldinu. Læknaráð beri einnig að endurskoða þar sem það sé skipað starfsmönnum spítalanna að mestu.

Skjólstæðingar Heimis Arnar gagnrýndu tvennt í málmeðferð Hæstaréttar. Í fyrsta lagi ákvörðun réttarins að leita til læknaráðs þremur dögum áður aðalmeðferð fór fram í málinu og eftir að málsaðilar höfðu lokið við gagnaöflun. Heimir Örn segir, að það sé þó í sjálfu sé ekki ólöglegt, þar sem samkvæmt lögum frá árinu 1943 geti Hæstiréttur leitað sjálfstætt til ráðsins.

„Þessi lög eru barn síns tíma. Þá ríkti annað viðhorf og þótti ekki tiltökumál að dómstólar tækju virkan þátt í gagnaöflun. Það þykir þó ekki gott í dag því það vekur upp efasemdir um hlutleysi dómstólsins. Í dag eiga málsaðilar að ráða því hverju þeir tefla fram og Hæstiréttur tekur afstöðu út frá því,“ segir Heimir Örn.

Í öðru lagi gagnrýndu skjólstæðingar Heimis Arnar þá ákvörðun Hæstaréttar að leita álits aðila sem tengist málinu og snúa dómi Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli þess álits.

„Læknaráð er skipað níu mönnum, sem yfirleitt eru starfsmenn spítalanna og oft má draga í efa að þeir séu bærir til þess að fjalla um málið,“ segir lögmaðurinn, sem telur eðlilegra að málsaðilar kalli sjálfir til dómkvadda matsmenn, sem eru hlutlausir álitsgjafar.

Nú þegar dómur Mannréttindadómstólsins er kominn segir Heimir framhaldið vera tvíþætt. Annars vegar vonast hann til þess að fyrirkomulaginu verði breytt þ.e. að Alþingi breyti lögunum frá 1943 um læknaráð eða Hæstiréttur láti sjálfur af slíkri gagnaöflun.

Hins vegar Heimir Örn kanna hvort ekki sé hægt að rétta hlut skjólstæðinga hans og fá upphaflegu bótaupphæðina sem Héraðsdómur dæmdi. Sú leið, sem helst er fær í þeim efnum er endurupptaka Hæstaréttarmálsins, en Heimir Örn segir ríkið einnig geta gripið inn í til rétta hlut fjölskyldunnar.

„Ég held að það muni særa réttlætiskennd almennings ef hlutur þeirra verður ekki réttur,“ segir Heimir og ítrekar að lokum mikilvægi þess að engin álitamál séu um hlutleysi Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert