Sjúkraflutningamenn safna í sjóð

mbl.is/Júlíus

Níu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) ætla að hjóla yfir landið 7.-18. júlí í því skyni að afla stuðnings við sjúkra- og líknarsjóð starfsmannafélags liðsins. Lagt verður af stað frá Fonti á Langanesi á laugardaginn og er fyrirhugað að ljúka ferðinni á Reykjanestá miðvikudaginn 18. júlí.

Sjúkra- og líknarsjóðurinn styrkir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sem verða fyrir alvarlegum áföllum en þeir starfa oft við aðstæður sem skapa miklar líkur á slysum og sjúkdómum. Stjórn sjóðsins getur einnig ákveðið að styrkja einstaklinga eða hópa utan raða SHS, að því er segir í tilkynningu.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri er í hópi hjólreiðamannanna. Hann segir í tilkynningu að starfsmenn SHS leiti eftir stuðningi fyrirtækja og almennings við sjóðinn og vonast til að ferðin yfir landið veki fólk til vitundar um mikilvægi hans.

„Markmiðið með öllu okkar starfi er að vernda líf og heilsu almennings en það er ljóst að oft reynir verulega á þrek og öryggi okkar manna við þau störf sem við sinnum. Við gerum ævinlega það sem við getum til að tryggja öryggi starfsfólks en við gerum okkur jafnframt grein fyrir að óvænt áföll geta orðið. Því leitum við nú eftir stuðningi almennings og fyrirtækja til að vera undir slík áföll búnir," segir Jón Viðar.

Fjöldi starfsmanna kemur að leiðangrinum og söfnuninni. Starfsmennirnir níu hjóla saman alla leiðina en aðstoðarmenn á öflugum bílum verða þeim innan handar með vistir og aðrar nauðsynjar. Hjólað verður því sem næst beint af augum en leiðangurinn fylgir slóðum og línuvegum þar sem það er unnt.

Öll framlög eru vel þegin og munu þau renna óskipt í sjúkra- og líknarsjóðinn. Reikningur sjóðsins er nr. 515-14-106690. Kennitalan er 460279-0469, að því er segir í tilkynningu.

Hér er hægt að fylgjast með ferðalaginu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert