Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárása en maðurinn sparkaði í höfuð annars manns, sem lá á jörðinni í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð árið 2005.
Sá sem fékk sparkið missti meðvitund um stund og fékk krampa.
Fram kemur í dómnum, að ákæra í málinu hafi ekki verið gefin út fyrr en í mars á þessu ári en þá var ár liðið frá því skýrslutökum lauk og rannsókn lögreglu lauk fyrir hálfu ári. Því sé ljóst að rannsókn málsins og meðferð hjá ákæruvaldi hafi dregist verulega og sé það aðfinnsluvert.
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi einnig í dag í öðru máli, sem tengdist Þjóðhátíð á síðasta ári. Þar var karlmaður dæmdur í 145 þúsund króna sekt fyrir að vera með 0,15 grömm af amfetamíni í fórum sínum.