Tilfellum lifrarbólgu C fjölgar hér á landi

Á árinu 2006 greindust 56 manns hér á landi með sýkingu af völdum lifrarbólgu C miðað við 44 árið áður. Lifrarbólga C er langalgengasta lifrarbólgan hér á landi. Hún smitast með sýktu blóði og er meginþorri þeirra sem smitast fíkniefnaneytendur sem sprauta sig.

Þetta kemur fram í ársskýrslu landlæknisembættisins fyrir árið 2006. Einungis greindust tvö tilfelli af lifrarbólgu A hér á landi á árinu 2006 og er því sjúkdómurinn sjaldgæfur hérlendis. Þeir sem sýkjast helst eru ferðamenn sem leggja leið sína til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur en helsta smitleiðin er saurmenguð matvara. Hægt er að fyrirbyggja sjúkdóminn með bólusetningu.

Lifrarbólga B er fágætur blóðsmitandi sjúkdómur um þessar mundir. Landlæknisembættið segir, að nokkuð hafi dregið úr honum því einungis 16 tilfelli greindust á árinu 2006. Megi rekja það til þess að innflytjendum til landsins fækkaði nokkuð á árinu, en umtalsverður hluti þeirra, sem greinst hafa með sjúkdóminn, eru dvalarleyfisumsækjendur sem koma frá löndum þar sem hann er landlægur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert