Boða bæði skammtíma- og langtímaaðgerðir vegna skerðingar á kvóta

Frá Flateyri
Frá Flateyri mbl.is/Brynjar Gauti

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra kynntu á blaðamannafundi í dag aðgerðir vegna skerðingar á aflamarki í þeim byggðalögum sem verst fara út úr skerðingunni. Er bæði um skammtíma- og langtímaaðgerðir að ræða.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að gripið verði til sérstakra aðgerða til að styrkja atvinnulíf á þeim svæðum sem verst verða fyrir barðinu á aflasamdrætti þar sem horfur eru hvað dekkstar. Aðgerðirnar eru í megindráttum þríþættar og munu koma skipulega til framkvæmda á næstunni.

„Miklar breytingar hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Aukin hagræðing og samþjöppun í greininni hefur leitt til aukinnar framleiðni og fækkunar fyrirtækja og starfsfólks. Samhliða þessu hefur annað atvinnulíf í landinu tekið stórfelldum breytingum og hér vaxið upp á skömmum tíma nýjar og öflugar atvinnugreinar svo sem fjármálaþjónusta og hátæknigreinar á fjölmörgum sviðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Mikil vöxtur þessara nýju greina hefur skapað mikla eftirspurn eftir vinnuafli, einkum velmenntuðum sérfræðingum víðs vegar að af landinu.

Þessar aðstæður hafa skapað erfiðleika í ýmsum byggðalögum, einkum þar sem sjávarútvegur hefur verið uppistaðan í atvinnulífinu. Vestfirðir eru glöggt dæmi um þessa þróun en sambærilegur vandi er víðar til staðar. Sá mikli samdráttur í aflaheimildum á þorski sem í dag hefur verið ákveðinn eykur enn á þennan vanda," samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem horfa einkum til þess að draga úr fyrstu áhrifum þeirrar tekjuskerðingar sem verður í kjölfar minnkunar þorskkvótans, jafnt hjá einstökum sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Í öðru lagi eru aðgerðir sem horfa til lengri tíma og miða að því að byggja samfélögin við sjávarsíðuna upp og stuðla að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi. Hér má nefna úrbætur í samgöngumálum, jafnt vega- sem fjarskiptamálum. Ennfremur aðgerðir sem miða að eflingu mennta- og menningarmála, meðal annars með aukinni áherslu á endurmenntun og starfsþjálfun. Einnig má nefna aðgerðir sem miða að því að efla nýsköpun. Loks verður lögð aukin áhersla á flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar.

Í þriðja lagi eru tillögur um eflingu hafrannsókna og endurskoðun á ýmsum þáttum er lúta að stjórn fiskveiða.

Þýðir ekki endilega nýtt fjármagn

Þessar tillögur fela ekki í öllum tilvikum í sér ákvörðun um nýtt fjármagn heldur tilfærslu á fjármunum milli ára, t.d. er unnt að flýta tilteknum vegaframkvæmdum vegna svigrúms sem skapast vegna seinkunar annarra framkvæmda. Jafnframt er unnt að gera sérstakt átak í viðhaldi opinberra bygginga sem felur í sér tilfærslu milli ára en ekki nýtt fjármagn. Sama gildir um flutning á opinberum störfum frá höfuðborgarsvæðinu og ýmsar tillögur Vestfjarðanefndarinnar.

„Lögð hefur verið áhersla á að þessar aðgerðir samrýmist því meginmarkmiði ríkisstjórnarinnar að treysta stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs með því að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, jafnan og öflugan hagvöxt og trausta stöðu ríkissjóðs. Þessi markmið verða höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu sem framundan er við frekari útfærslu á tillögunum og undirbúningi fjárlaga fyrir árið 2008. Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra munu í samráði við aðra ráðherra hafa umsjón með því að útfæra tillögurnar og meta þörf fyrir aðstoð í einstökum byggðalögum, meðal annars með tilliti til fækkunar starfa, fyrirsjáanlegs atvinnuleysis og tekjusamdráttar."

Skammtímaaðgerðir

1. Samkvæmt viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá því fyrr á árinu liggja fyrir áform um tímabundin aukaframlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á þessu og næsta ári til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga. Þörf fyrir aukin framlög til þeirra sveitarfélaga sem aflasamdrátturinn bitnar verst á verður metin í ljósi breyttra aðstæðna. Ríki og sveitarfélög eru í samstarfi um mótun tillagna um fjármálareglur fyrir sveitarfélög og mun ríkisstjórnin vinna með sveitarfélögum sem framfylgja slíkum fjármálareglum við að lækka skuldastöðu þeirra.

2. Gripið verður til aðgerða til að styrkja Byggðastofnun þannig að hún verði betur í stakk búin til að liðsinna fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum í þessum byggðarlögum ásamt lánastofnunum viðkomandi fyrirtækja.

3. Veiðigjald vegna þorskveiða næstu tveggja fiskveiðiára verður fellt niður.

Aðgerðir sem horfa til lengri tíma

4. Unnið verður að því að efla grunnstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu svæðisins í samræmi við tillögur Vestfjarðanefndarinnar.

5. Ráðist verður í sérstök átaksverkefni til að treysta atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum, ekki síst með tilliti til atvinnumála kvenna. Þetta verði meðal annars gert með auknum framlögum til endurmenntunar, frumkvöðlastarfsemi og starfsþjálfunar og framlögum til sérstakra átaksverkefna atvinnuþróunarfélaga til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Auk þess verður gert sérstakt átak í flutningi opinberra starfa til landsbyggðarinnar og fjölgun starfa án staðsetningar.

6. Mikilvægt er að treysta grunnstoðir atvinnulífs á þessum svæðum með úrbótum í samgöngumálum. Í þessu skyni verður meðal annars vegaframkvæmdum flýtt. Sömuleiðis verður uppbyggingu fjarskiptaþjónustu hraðað, jafnt farsímaþjónustu sem háhraðatengingum. Ennfremur verður gert sérstakt átak í viðhaldi opinberra bygginga.

Efling hafrannsókna og endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða

7. Skipuð verður nefnd fulltrúa allra þingflokka til að skoða reynsluna af aflamarkskerfinu eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

8. Reglur um forkaupsrétt á aflaheimildum, framsal innan ársins, veiðiskyldu og byggðakvóta verða endurskoðaðar með það að markmiði að auka stöðugleika í sjávarútvegi og sjávarbyggðum.

9. Hafrannsóknir verða efldar. Jafnframt verður settur á laggirnar hópur sérfræðinga sem hefði það hlutverk að leggja mat á veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Einnig verður sett á laggirnar nefnd til að fara yfir fyrirkomulag togararallsins og gera tillögur um úrbætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert