Nokkrir fangar á Litla-Hrauni gengu í skrokk á einum samfanga sínum á miðvikudag og fótbrutu manninn. Að sögn Valtýs Sigurðssonar, forstjóra Fangelsismálastofnunar, fer nú fram lögreglurannsókn á málinu og vildi hann ekki tjá sig frekar í gær.
Egill Rafn Sigurgeirsson, yfirlæknir á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sagði að samráð hefði að venju verið haft við bæklunardeild Landspítalans.
"Við sendum röntgenmyndir sem við tökum með rafrænum hætti beint á bæklunardeildina í Fossvogi," sagði Egill Rafn. "Maðurinn er brotinn á öðrum fæti, brotið er í hné. Þetta er náttúrlega slæmt brot og þarf að laga það með aðgerð. Mat manna var að nægilegt væri að setja hann í gifs, fyrst og fremst til að draga úr sársauka. Hann gæti þá beðið á Litla-Hrauni eftir aðgerð í Reykjavík. Aðgerðin átti að vera í dag [fimmtudag] en vegna anna fer hann líklega í aðgerð á morgun."