Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins segist vera hissa á ákvörðun sjávarútvegsráðherra að fara svo langt niður með aflaheimildirnar á þorski.
„Framsókn hefur rökstutt þá tillögu að fara niður í 150 þúsund tonn. Við eru ekki að gera lítið úr skýrslu Hafrannsóknarstofnunnar og gerum okkur grein fyrir því að það þarf að fara varlega, en það eru ýmsir óvissuþættir í málinu öllu og það hefur skort á fjármagn til þess að rannsaka lífríki sjávar,“ segir Valgerður.
Framsókn vill efla rannsóknarstarf
Framsóknarflokkurinn lagði fram tillögu um að 400 milljónum yrði eytt á þessu ári til að auka rannsóknir á þorskinum.
„Það er spurning hvort ætti ekki að friða frekar stærri svæði og rannsaka sérstaklega þau svæði þar sem hrygningar eiga sér stað. Einnig þarf að rannsaka frekar samband þorsks og loðnu og þá þorskstofna sem eru við landið. Þess vegna viljum við setja meiri kraft í rannsóknir og þykir í því tilliti áhugavert að styrkja starf Hafrannsóknarstofnunnar á Vestfjörðum. En það er í rauninni ekki síst fyrir þetta samband milli tegunda að við teljum ekki ráðlegt að fara niður fyrir 150 þúsund tonna þorskkvóta. Auk þess sem samsetningin er þannig að aukin hætta er á brottkasti.“
Markaðir í hættu ef aflamarkið er lækkað
Valgerður segir vera búið að vinna gríðlegt starf í markaðssetningu á íslenskum fiski og verð vera mjög gott, þótt það skili sér ekki að fullu vegna styrks krónunnar. Það sé stórt mál að skaða ekki þá markaði sem hafa unnist. Að því leiti sé 130 þúsund tonna aflamark varhugavert.
Heyrði ekki mikið um mótvægisaðgerðir
Aðspurð hvernig mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi lagst í varaformanninn segist hún ekki hafa heyrt mikið um slíkt. Samgöngumálin séu mikilvæg og allt slíkt komi að miklum notum, en það komi ekki í veg fyrir að störfum mun fækka.
„Framsókn vill auka nýsköpun og ég vil minna á vaxtasamninga, sem búið er að koma á flestum stöðum, sem efla hugmyndir heimamanna. Stjórnvöld geta þannig komið að því að efla byggðir úti á landi,“ segir varaformaðurinn og segir Framsóknarflokkinn leggja áherslu á að auka samstarf milli háskóla og uppbyggingu tæknigarða víða um land, þar sem ljóst sé að sjávarútvegurinn muni ekki stuðla að frekar atvinnusköpun.