Þingflokkur Frjálslynda flokksins átelur harðlega ríkistjórnina fyrir að sniðganga Alþingi með því að setja bráðabirgðalög um notkun raflagna á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Segir þingflokkurinn, að þingið sitji allt árið og ef málið sé svo brýnt að ekki þoli bið til haustsins sé hægt að kveðja það saman með stuttum fyrirvara og leggja fram frumvarp um málið.
Þá segir flokkurinn, að það hljóti að vera mikið umhugsunarefni hvort rétt sé að veita svæðisbundna undanþágu frá öryggisákvæðum laga sem sett séu til þess, að draga sem mest úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af starfrækslu þeirra.