Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar stjórnvalda um aflamark, þar sem fram kemur að þingflokkurinn telji að þorskkvóti eigi áfram að vera svipaður og verið hefur. Þá eigi að takmarka loðnuveiðar verulega og gefa handfæraveiðar frjálsar.
Yfirlýsingin fer í heild sinni hér á eftir:
Samþykkt þingflokks Frjálslynda flokksins um aflamark.
Þingflokkurinn telur að virtum öllum fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum að þorskkvóti eigi að vera svipaður og verið hefur. Ákveðinn verði jafnstöðuafli til þriggja ára og að til aflamarkskerfisins verði ráðstafað árlega um 170 þúsund tonnum, sem er það magn sem að jafnaði hefur verið í kerfinu síðustu 15 ár. Loðnuveiðar verði takmarkaðar verulega og ítrekuð er sú stefna flokksins að gefa handfæraveiðar frjálsar.
Markmið um verndun og uppbygging þorskstofnsins með aflamarkskerfinu hefur mistekist. Mikill samdráttur í þorskveiðum á síðasta áratug varð ekki til þess að auka kvótann í kjölfarið til lengri tíma.
Svona mikill samdráttur í aflamarki mun auka á veikleika aflamarkskerfisins sem birtast í brottkasti, framhjálöndum, útflutningi og fölsuðum aflatölum og gera aflatölur enn frekar óáreiðanlegar sem upplýsingar um heildarveiði.
Fyrirliggjandi upplýsingar úr neta- og rækjuralli og haustralli Hafrannsóknarstofnunar gefa aðra og mun betri mynd af ástandi þorskstofnsins en skýrsla stofnunarinnar getur til kynna.
Enginn aðili hefur lagt til að fylgja tillögum Hafrannsóknarstofnunar að fullu. ICES leggur til 152.000 tonn, Seðlabankinn 160 þúsund tonn, LÍU 155 – 160 þúsund tonn, Landssamband smábátaeigenda leggur til 220.000 tonn svo og Samtök fiskvinnslustöðva án útgerðar svo nefnd séu nokkur dæmi.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um mikinn niðurskurð í þorskveiðum næstu þrjú ár mun leiða til mikillar samþjöppunar í sjávarútvegi og stuðla að verulegri fólksfækkun, einkum þar sem atvinna byggist að verulegu leyti á þorskveiðum.
Engin áform eru hjá ríkisstjórninni um að auka atvinnuöryggi fólks með nauðsynlegum breytingum á aflamarkskerfinu. Boðaðar mótvægisaðgerir í atvinnumálum eru óljósar og ómarkvissar. Reynslan af almennu og loðnu orðalagi er því miður sú að viljinn til verka sé meiri í orði en á borði.
Boðuð flýting framkvæmda í samgöngum og fjarskiptum er af hinu góða en draga ekki úr högginu af samdrættinum í atvinnu og tekjum fyrir einstaklingana.
Veiðigjaldið var grundvöllurinn að samkomulagi um að hafa óbreytt aflamarkskerfi. Sá grundvöllur brestur þegar veiðigjaldið verður afnumið næstu 2 ár í þorskveiðum.