„Læknaráð algerlega úrelt fyrirbæri"

Matthías Halldórsson
Matthías Halldórsson

Matthías Halldórsson, landlæknir og formaður læknaráðs, segir læknaráð algerlega úrelt fyrirbæri.

Það starfi samkvæmt lögum frá upphafi 5. áratugarins þegar önnur viðhorf ríktu í heilbrigðismálum hérlendis.

Sem dæmi um hversu lögin eru úr sér gengin nefnir Matthías að þar sé gert ráð fyrir að í ráðinu sitji m.a. yfirlæknir Geðveikrahælis ríkisins, sem ekki sé lengur til og svo framvegis.

„Einnig segir í lögunum að í ráðinu eigi að sitja yfirlæknir Tryggingastofnunar ríkisins. Það er staða sem búið er að leggja niður, þannig að við erum sífellt að reyna að elta þessi lög sem eru frá þeim tíma sem allt önnur viðhorf voru ríkjandi."

Matthías bendir á að eðli málsins samkvæmt gerist mörg mál, sem læknaráð fjallar um, innan Landspítalans „og þar eru allir sérfræðingarnir," segir Matthías. „Yfirlæknarnir á deildunum eru auðvitað illa í stakk búnir til að segja hvort spítalinn hafi staðið sig eða ekki, því þeir eru starfsmenn spítalans. En það er hvorki þeim að kenna, né læknaráði, heldur lögunum sem við erum bundin af."

Matthías bendir á að þegar málum sé vísað til læknaráðs sé stundum þegar búið að fjalla um þau hjá landlækni. En landlæknir er jafnframt formaður læknaráð og því ber skipulagið keim af hringavitleysu að mati Matthíasar. „Það eru ágætismenn í læknaráði og þeir eru mjög vel að sér. Það er hinsvegar skipulagið sem er vitlaust. Það er mjög mikil ástæða til að breyta lögunum um læknaráð. Nú er nýbúið að setja ný lög um landlæknisembættið og heilbrigðisþjónustu. Að mínu mati er nauðsynlegt að næst verði lögunum um læknaráð breytt því þau bera það með sér að vera forneskjuleg."

Að mati Matthíasar væri æskilegt að formaður læknaráðs væri lögfræðingur í stað læknis nú. „Hann myndi síðan taka með sér ýmsa þá sem hann teldi að hefðu ástæðu til að fjalla um ákveðin mál."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert