Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þorskafla næsta fiskveiðiárs ekki koma á óvart eftir umræður undanfarinna daga. „Þetta verður gríðarlega erfitt en við eigum eftir að komast í gegn um þetta. Þetta mikill samdráttur á eftir að hafa veruleg áhrif og koma niður á fyrirtækjum, starfsfólki og byggðalögum. Það er bara staðreynd málsins,” sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann eftir að ákvörðunin var kynnt í morgun. „Málið myndi kannski horfa öðru vísi við ef við byggjum í eðlilegu gengisumhverfi en það gerum við ekki."
„Við höfðum lagt til að kvótinn yrði lækkaður í 155 til 160 tonn og finnst því of langt gengið. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að á sama tíma búum við við handstýrða hágengisstefnu sem rekin er í gegnum hávaxtastefnu Seðlabankans. Hún kemur niður á sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu og öllum samkeppnisrekstri og úr því sem komið er virðist mér breytt gengisstefna vera eina hugsanlega leiðin til að milda áfallið.”
Friðrik segir ákvörðun um verulega lækkun þorskkvóta þó hafa legið í loftinu og þar sem útvegsmenn hafi átt marga fundi um málið með fulltrúum yfirvalda undanfarna daga hafi sú ákvörðun sem kynnt var í dag ekki beint komið þeim á óvart. „Við teljum hins vegar að betra hefði verið að taka þetta í minni skrefum,” sagði hann.