Mikil straumur ferðamanna hefur verið til Vestmannaeyja seinustu daga enda fagna heimamenn goslokum nú um helgina. Að beiðni bæjarstjórnar sigldi Herjólfur næturferð í gær og var hún vel nýtt. Auk þess var fullt fyrir bíla í báðar dagferðir í gær sem og í dag.
Svipaða sögu er að segja um flugsamgöngur, en þrjú flugfélög sinna nú áætlunarflugi til Eyja því auk Flugfélags Íslands sem flýgur milli Eyja og Reykjavíkur fljúga flugfélögin Vængir og Flugfélag Vestmannaeyja milli Bakka og Vestmannaeyja.
Dagskrá Goslokahátíðar er að venju glæsileg. Uppskriftin þetta árið svipar til þess sem verið hefur undan farin ár enda hafa Eyjamenn sérhæft sig í skemmtunum af þessu tagi og nánast tryggt að gleði og glaumur verður alsráðandi.
„Þetta árið gerum við ákveðna áherslubreytingu á hátíðinni þar sem við viljum hafa stærri hluta hennar fyrir börn og fjölskylduna. Við höfum því farið þá leið að tvískipta til dæmis dagskránni í Skvísusundi þar sem börnin geta fengið að kynnast þessari stemningu sem myndast við gítarleik og söng," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í samtali.
„Að hætti okkar Eyjamanna er dagskráin metnaðarfull og vönduð og nóg um að vera fyrir alla aldurshópa. Við spönnum þannig sviðið allt frá erlendum sirkus yfir í siglingar um sundin blá. Meðal dagskráliða eru til dæmis golfmótið Vulcano open, menningardagskrá, gönguferðir að ógleymdu skvísusunds partýinu sem engin skemmtanaþyrstur Íslendingur ætti að láta fram hjá sér fara. Andrúmsloftið í kringum lopapeysur og gítar er eitthvað sem fær jafnvel harðsvíraðar miðborgarspírur til að sleppa fram af sér beislinu og orga textann við Lífið er yndislegt," sagði Elliði.