Ökumaður yfirbugaður eftir hraðakstur

Lögreglan í Borgarnesi veitti manni sem mældist á 116 km hraða undir Hafnarfjalli þar sem 90 kílómetra hámarkshraði er eftirför. Ökumaðurinn sinnti ekki merkjum lögreglu og beygði ítrekað í veg fyrir lögreglubílinn og reyndi einu sinni að keyra á hann. „Hann fór einu sinni upp í 150 en var yfirleitt á 100 til 120m,” sagði lögreglumaður sem veitti honum eftirför í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

„Við fengum lögregluna á Akranesi og Reykjavík til aðstoðar, þeir komu á móti okkur í Hvalfirði, við náðum að hægja á honum í krappri beygju fyrir einbreiðu brúnna yfir Laxá í Kjós og króuðum hann þar inni,” sagði Þorsteinn Jónsson lögreglumaður.

Þorsteinn sagði að ökumaðurinn hafi verið einn í bílnum með hann í gangi og læsti að sér þegar búið var að króa hann af á brúnni.

„Hann var með bílinn í drive og við vildum ekki að hann færi að bakka bílnum fram og aftur á brúnni þannig að við biðum ekkert eftir því, brutum bara rúðuna og yfirbuguðum manninn og járnuðum hann,” sagði Þorsteinn.

Maðurinn er talinn vera um fimmtugt en hann hefur neitað að tjá sig við lögregluna. Ekki leikur grunur á ölvunar- eða lyfjaakstri.

Þorsteinn sagði að ekkert tjón fyrir utan rúðubrotið á bíl mannsins hefði orðið af eftirförinni en að þeir hefðu lagt mikla áherslu á að stöðva manninn áður en hann kæmist á Vesturlandsveg þar sem umferð er mikil en hann mun hafa tekið fram úr mörgum bílum áður en hann var stöðvaður og farið ítrekað yfir óbrotna línu á þjóðveginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert