Sævar: Komið til móts við alla aðila nema sjómenn

mbl.is

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir einkennilegt að í þeim mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í morgun, vegna skerðingar á þorskskvóta, séu sjómenn hvergi nefndir á nafn. „Það er talað um sértækar aðgerðir til að auðvelda útgerðarmönnum, fiskverkafólki og sveitastjórnum áfallið en ekki minnst einu einasta orði á þá stétt sem verður fyrir mestu skakkaföllunum vegna aflaskerðingarinnar þ.e.a.s. sjómenn," sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Þetta sýnir bara hvaða hug þessir menn bera til sjómanna."

Sævar sagði ákvörðun um aflaskerðingu ekki hafa komið sjómönnum á óvart þar sem slík ákvörðun hafi legið í loftinu frá því skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um ástand þorskstofnsins var birt. Ákvörðunin þýði hins vegar ótvíræða tekjuskerðingu fyrir sjómenn og að það viðhorf stjórnvalda sem skýrt hafi komið fram í morgun sé eins og salt í sárin fyrir sjómenn.

Sævar Gunnarsson.
Sævar Gunnarsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert