„Drengurinn er búinn að ganga í gegnum algjöra martröð og hefur átt við mikla sálræna erfiðleika að stríða. Hann hefur m.a. verið í sjálfsmorðshugleiðingum og orðið fyrir aðkasti í fangelsinu," segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður piltsins sem sýknaður var í gær af ákæru um nauðgun. Honum var sleppt í gær eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 19. mars sl. – lengst af á grundvelli almannahagsmuna.
Sveinn Andri telur það umhugsunarefni að hægt sé að dæma menn aftur og aftur í gæsluvarðhald á grundvelli einhverra „ímyndaðra" almannahagsmuna og segir borðleggjandi að grundvöllur sé fyrir skaðabótamáli gegn ríkinu – ef þetta verður endanleg niðurstaða í málinu.
„En það breytir því ekki að peningar bæta ekki þessa martröð sem drengurinn er búinn að ganga í gegnum."