Slitnar upp úr viðræðum um aukaferðir Herjólfs

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.

Slitnað hefur upp úr samningaviðræðum Eimskips og Vegagerðarinnar um næturferðir Herjólfs til Vestmannaeyja í sumar en ástæðan er sögð vera vera ágreiningur um greiðslur. Vegagerðin segir þetta þýða, að ekki verði hægt að fjölga næturferðum á föstudögum. Ákveðið var að bæta við þremur auka næturferðum í kringum þjóðhátíðina í ágústbyrjun en um það var samið fyrir nokkru.

Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, sagði niðurstöðu símafundar síðastliðinn mánudag, sem hann átti með Guðmundi Nikulássyni, framkvæmdastjóra Innanlandssviðs Eimskips, hafa verið þá að frekari viðræður væru tilgangslausar þar sem svo mikið bæri á milli aðila og að hann hafi staðfest þennan sameiginlega skilning þeirra í tölvupósti síðastliðinn þriðjudag.

„Ég lít svo á að það verði ekki hægt að fjölga næturferðum á föstudögum vegna þess að ekki næst samkomulag á milli Eimskipa og stjórnvalda í þessu sambandi,“ sagði Gunnar og bætti við að vandamálið væri ekki fólksflutningar fyrst og fremst heldur skortur á flutningsrými fyrir bíla.

Fram kemur á heimasíðu Herjólfs, að ákveðið hafi verið að bæta við þremur auka næturferðum í kringum þjóðhátíðina. Verða ferðirnar farnar miðvikudaginn 1. ágúst, föstudaginn 3. ágúst og miðvikudaginn 8. ágúst. Verður brottför frá Vestmannaeyjum kl. 23 og frá Þorlákshöfn kl. 2 eftir miðnætti. Þessar ferðir eru til viðbótar þeim sem eru nú þegar á áætlun um þjóðhátíðina, þann 2. og 7. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert