Ferðafólki bjargað heilu á höldnu í Þórsmörk

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli komu að björgun ferðamanna í …
Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli komu að björgun ferðamanna í Þórsmörk í kvöld. mbl.is/Kristján

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú á leið í skála með 11 ferðamenn sem lentu í sjálfheldu í Þórsmörk. Hópurinn hafði gengið yfir Fimmvörðuháls og tók vinstri beygju af Morinsheiði, sem leið lá niður í Hvannárgil. Þegar fólkið var komið sunnarlega í Útgönguhöfða lenti það í sjálfheldu og komst hvorki lönd né strönd. Fararstjóri hópsins komst við illan leik af höfðanum þar sem hann komst í símasamband og gat hringt í Neyðarlínuna.

Gönguhópar úr björgunarsveitum á Hellu og Hvolsvelli fóru á staðinn ásamt félögum björgunarsveita sem eru í hálendisgæslu á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Komust þeir að fólkinu klukkan rúmlega níu í kvöld. Ferðafólkið er allt heilt á húfi og á leið í skála eins og fyrr segir.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á svæðið en gat illa athafnað sig þar sem lágskýjað er í Þórsmörk í kvöld. Hún gat þó sveimað yfir og aðstoðaði björgunarsveitarfólk við að áætla staðsetningu hópsins, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert