Of lítill stuðningur og ónógar upplýsingar

Paola Kjærnested
Paola Kjærnested mbl.is/Eyþór

Paola Kjærnested sagði Oddnýju Helgadóttur frá rannsókn sinni á högum erlendra kvenna sem skilja við menn sína á Íslandi. Nærri fjórðungur kvennanna skildi vegna heimilsofbeldis. Lögregla sinnti ekki alltaf neyðarútköllum þeirra.

Margar þessara erlendu kvenna, m.a.s. þær sem hafa búið hér í áraraðir, vita að þær fá aldrei fulla viðurkenningu á Íslandi. Ímyndaðu þér hvernig það er," segir Paola Kjærnested á lýtalausri íslensku.

Fyrir stuttu lauk hún meistaraverkefni í sálfræði við Háskóla Íslands. Þar segir hún frá rannsókn sem hún gerði á aðstæðum erlendra kvenna sem voru giftar eða í sambúð á Íslandi og slitu sambandinu.

Paola ólst upp í Venesúela, faðir hennar er kólumbískur og móðir hennar frá Chile. Hún lauk BA-námi frá Suffolk-háskóla í Bandaríkjunum og hefur búið á Íslandi í nærri átta ár. "Þegar ég er spurð hvaðan ég sé veit ég aldrei hverju ég á að svara," segir hún og hlær. "Oftast segist ég bara vera frá Suður-Ameríku."

Áhugi Paolu á að skrifa ritgerð um þetta efni kviknaði af því að hún var sjálf gift íslenskum manni sem hún skildi við.

"Það var mjög erfitt. Ekki bara tilfinningalega, eins og allir skilnaðir, heldur líka í framkvæmd. Ég er reyndar svo heppin að tala ágæta íslensku og eiga marga góða að hérna, en á þessu skeiði áttaði ég mig á því hversu erfitt það er fyrir þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli að ganga í gegnum þetta ferli. Allir pappírar eru á íslensku, stundum mjög flókinni. Lög um skilnað eru líka á tyrfnu máli. M.a.s. á vef Alþjóðahússins eru upplýsingar um skilnað á íslensku."

Auk þess bendir hún á að margar erlendar konur eigi hvergi höfði sínu að halla þegar eitthvað bjátar á. Þá viti margar þeirra fátt um réttindi sín og hvernig kerfið virkar hérna. Hún segir sumar þeirra ekki þora að skilja af ótta við að missa dvalarleyfið.

"Sumar eru mjög háðar maka sínum og skilnaðurinn verður þá enn erfiðari. Margar eiga börn og það er bæði fjárhagslega og tilfinningalega erfitt að vera einstæð móðir," útskýrir Paola.

Hún segir að örðugt sé að nálgast sumar konurnar. Þær séu einangraðar, kunni litla íslensku og viti ekki hvert þær eigi að snúa sér við erfiðar aðstæður.

Sjá ítarlega umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert